Þjónusta í boði


Afgreiðslutími


Mánudaga 09:00 til 16:00

Þriðjudaga 09:00 til 16:00

Miðvikudaga lokað

Fimmtudaga 09:00 til 16:00

Föstudaga 09:00 til 16:00

Aðgangur er ókeypis


Staðsetning

Við erum við Austurveg 2, 800 Selfossi


Netfang

heradsskjalasafn@heradsskjalasafn.is


Vafrakökur

Þessi heimasíða notar ekki vafrakökur

Spurningar? Hafðu samband


Hringdu, sendu okkur tölvupóst eða hafðu samband á Facebook síðu safnsins

482 1259

Ráðgjöf


Varðveisla skjala er hluti af lögbundnum skyldum stjórnsýslu sveitarfélaga. Lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 kveða á um þessar skyldur. Héraðsskjalasafn Árnesinga skal skv. 13. gr. þessara laga hafa eftirlit með framkvæmd afhendingarskyldra aðila á lögum þessum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Afhendingarskyldir aðilar skulu veita aðgang að starfsstöðvum sínum í þágu eftirlits og ráðgjafar.

Starfsmenn Héraðsskjalasafnsins veita sveitarfélögum og stofnunum þeirra, félögum og einstaklingum á starfssvæði safnsins ráðgjöf um skjalavörslu og skjalahald.

Til þess að fá aðstoð geta forstöðumenn afhendingarskyldra stofnana sveitarfélaga eða umsjónarmenn skjalasafna þeirra sett sig í samband við Héraðsskjalasafn Árnesinga. Skjalaverðir veita ráðgjöf í gegnum síma 482 1259 á afgreiðslutíma safnsins, hægt er að senda tölvupóst á heradsskjalasafn@heradsskjalasafn.is eða óska eftir fundi og fá skjalaverði í heimsókn.

Undir lög, reglugerðir og reglur er m.a. að finna þær reglur sem settar hafa verið á gundvelli laga um opinber skjalasöfn og eiga við um sveitarfélög og stofnanir þeirra.

Eyðublöð


Afhendingarskyldir aðilar, sveitarfélög og stofnanir þeirra, geta nálgast eyðublöð og sniðmát vegna tilkynninga, skila, skráningar og eyðingar á skjölum með því að senda tölvupóst á heradsskjalasafn@heradsskjalasafn.is. Hér er hægt að nálgast eyðublað vegna eyðingu skjala í samræmi við reglur um varðveislu og eyðungu skjala úr fjárhagsbókhaldi afhendingarskyldra aðila nr. 1022/2023 og reglna um eyðingu prófúrlausna og metinna námsmatsgagna hjá afhendingarskyldum aðilum nr. 913/2021.

Útfyllt eyðublöð eru send með tölvupósti á Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Eyðublað vegna grisjunar í skjalasöfnum sveitarfélaga og stofnana þeirra sbr. reglur nr. 627/2010 og 1022/2023.

Eyðublað vegna afhendingar á einkaskjalasafni - upplýsingar um skjalamyndara Í vinnslu

Afhendingar


Héraðsskjalasafn Árnesinga tekur við skjölum afhendingarskyldra aðila á sveitarstjórnarstiginu í Árnessýslu.

Einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki í umdæmi Héraðsskjalasafns Árnesinga geta afhent því skjöl sín til varðveislu. Þegar ætlunin er að koma skjalasöfnum einstaklinga, félagasamtaka eða fyrirtækja í vörslu Héraðsskjalasafns Árnesinga skal hafa samband við starfsfólk Héraðsskjalasafnsins um nánara fyrirkomulag afhendingar.

Afhendingar afhendingarskyldra aðila, skráning og frágangur skjalasafna fylgir reglum sem Þjóðskjalasafn Íslands setur sem og alþjóðlegum stöðlum þar um til að tryggja gæði skráningar og leitarbærni.

Leita skal samþykkis Héraðsskjalasafnsins fyrir afhendingu skjala og bera undir starfsfólk frágang og skráningu með hæfilegum fyrirvara áður en skjöl eru afhent.

AfhendingarskyldaHlutverk opinberra skjalasafna er að taka við og heimta inn skjöl og varðveita þau og önnur gögn frá afhendingarskyldum aðilum. Afhendingarskyldir aðilar eru m.a. sveitarfélög, svo og allar stofnanir og nefndir á þeirra vegum sem fara með stjórnsýslu. Sama gildir um byggðasamlög og aðra þá aðila sem sjá um framkvæmd einstakra stjórnsýsluverkefna vegna samvinnu sveitarfélaga.

Afhendingarskylda gildir enn fremur um lögaðila sem eru 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Afhendingarskyldan á við gagnvart héraðsskjalasafni þegar viðkomandi aðilar eru í eigu sveitarfélaga sem reka eða eiga aðild að héraðsskjalasafni. Skylt er þeim sem falla undir þessi ákvæði að afhenda opinberu skjalasafni skjöl sín.

Afhendingarskyld skjöl skal afhenda þegar þau hafa náð 30 ár aldri. Héraðsskjalasafn Árnesinga tekur við yngri skjölum frá afhendingarskyldum aðilum í samræmi við 1. mgr. 15. gr. laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 enda mæla sérstakar ástæður með því.

Aðgengi að skjölum á lestrarsal og aðfangastefna


Aðgengi að skjölum er á lestrarsal eða á vefsíðu héraðsskjalasafnsins undir heimildir. Héraðsskjalasafn Árnesinga veitir aðgengi að skrám yfir skjalasöfn í vörslu sinni á lestrarsal og á vef undir skjalaskrár. Héraðsskjalasafnið tryggir aðgengi almennings, fræðimanna og stjórnvalda að safnkostinum á lestrarsal í frumritum og með afritum eða á vef. Auk þessa er handbókasafn Héraðsskjalasafnsins aðgengilegt á lestrarsal.

Að jafnaði gildir sú regla að öllum er heimill aðgangur að skjölum í vörslu héraðsskjalasafnsins. Á þessu eru nokkrar undantekningar sem flestar lúta að almannahagsmunum og persónuvernd einstaklinga. Skjöl sem innihalda upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga eru ekki opin/aðgengileg öðrum en þeim er málið varðar, fyrr en að 80 árum liðnum frá myndun skjalanna. Sjá nánar Upplýsingalög nr. 140/2012, Lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Héraðsskjalasafnið hefur sett sér sérstaka aðfanga- og vörslustefnu til að tryggja að varðveislu einkaskjalasafna sé hagað skipulega og með kerfisbundnum hætti. Mikilvægt er að einkaskjalasöfn varveitist ekki síður en skjöl opinberrar stjórnsýslu til að tryggja vitnisburð um fyrri tíma á fullnægjandi hátt. Í skjölum einkaskjalasafna felast bein og óbein réttindi einstaklinga, t.d. fjárhagsleg réttindi, eignaréttindi, starfsréttindi o.fl.

Reglur á lestrarsal og um afritun


Reglurnar taka mið af reglum Þjóðskjalasafns Íslands fyrir gesti á lestrarsal frá 20. janúar 2010.

Við komu á lestrarsal skulu gestir skrá nafn sitt í gestabók.

Aðgangur að skjölum getur verið takmarkaður skv. lögum.

Einungis ein skjalaaskja má vera opin í einu til að koma í veg fyrir að innihald ruglist. Halda skal innihaldi askja og röð skjala óbreyttri. Öllum gögnum skal að lokinni notkun skila til skjalavarða.

Gæta skal fyllstu varkárni í meðferð skjala: Aðeins má nota blýanta, ekki penna á lestrarsal. Ekki má skrifa í skjöl eða merkja þau t.d. með límmiðum. Ekki má beygla skjöl eða brjóta á hrygg. Ekki má nota skjöl sem undirlag eða stafla opnum bókum hverri ofan á aðra. Ekki má láta bækur hvíla á borðbrún eða í kjöltu sér. Tilkynnið skjalavörðum um skemmd skjöl eða ef röð skjala virðist röng.

Heimilt er að ljósmynda skjöl með myndavél, brjóti það ekki í bága við lög sbr. Upplýsingalög nr. 140/2012 og Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Ávalt skal þó fá samþykki skjalavarða áður en skjöl eru ljósmynduð. Ekki má mynda skjöl sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.

Gæta skal fyllstu varúðar við myndatökuna og gæta þess að skemma ekki skjöl eða bækur með þvingunum eða öðrum hætti. Ekki reyna að slétta blaðrönd sem er trosnuð (rifin og slitin) eða beygluð. Hafa skal samband við skjalavörð í slíkum tilvikum. Ekki má nota leifturljós við myndatöku.

Ekki má mynda skjöl sem eru varin af höfundarréttarákvæðum svo sem ljósmyndir með höfundarnafni.

Ekki má trufla aðra gesti með samtölum eða öðrum hávaða. Óheimilt er að tala í síma á lestrarsal.

Brot á reglum þessum getur varðað banni við aðgang að lestrarsal.

Tilvísanir í skjöl á Héraðsskjalasafni Árnesinga


Héraðsskjalasafn Árnesinga er stytt HérÁrn. Vísa skal í afhendingarnúmer, heiti skjalasafn/skjalamyndara og skjal. Einnig skal vísa í númer á öskju og örk á þeim söfnum sem eru skráð.

Dæmi:

HérÁrn. 2006/28 Hreppstjóri Selvogshrepps. Uppboðs- og virðingabók 1896-1921, A/1 - 4.

HérÁrn. 1995/38 Árni G. Eylands. bréf 16.12.1944 frá Jóni Antonssyni kaupmanni á Akureyri til Árna G. Eylands, A/10 – 2.

HérÁrn. 2012/22 Kvenfélag Villingaholtshrepps. Aðalfundur 7.3.2003, fundargerðabók 1997-2009 A/1 – 1.

Pantanir og afgreiðsla skjala


Pöntunum og afgreiðslu skjala á lestarsal er sinnt jafn óðum. Meginreglan er að ekki þarf að panta skjöl fyrirfram. Á þessu geta þó verið undantekningar ef um mikið magn skjala er að ræða eða ef skjölin eru varðveitt í fjargeymslum safnsins. Þá eru skjölin afgreidd næsta dag.

Héraðsskjalasafninu er heimilt að lána skjöl í opinber skjalasöfn, bókasöfn eða rannsóknarstofnanir. Ekki er heimilt að lána einstaklingum skjöl. Forstöðumaður þess safns/stofnunar, sem óskar eftir skjölum í millisafnalán, er ábyrgðaraðili vegna skjalalána. Skjölin skulu geymd á öruggum stað, þar sem ábyrgðaraðili/ starfsmenn safnsins hafa einir aðgang. Notandi má einungis nota skjölin á vöktuðu svæði og umgangast þau samkvæmt reglum sem gilda á lestrarsal Héraðsskjalasafns Árnesinga. Ljósmyndun, skönnun, ljósritun eða önnur afritun skjala skal háð reglum Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Aðgengi að skjölunum skal miða við einn notanda. Ef aðrir en sá sem í upphafi kom beiðninni á framfæri biðja um afnot, skal hafa samband við Héraðsskjalasafn Árnesinga. Að jafnaði eru ekki lánaðar fleiri en 8 til 10 skjalaöskjur hverju sinni. Útlánstími skal að jafnaði vera á bilinu 1-3 mánuðir. Hægt er að framlengja útlánstíma og skal það gert með formlegum og sannanlegum hætti. Kostnaður vegna flutnings skjala greiðist af lántökusafni.

Reglur þessar byggjast á 25.-33. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og miða að því að tryggja öryggi skjalanna og þar með framtíðarvarðveislu þeirra og notkun.

Gjaldskrá


Héraðsskjalasafnið selur og leigir eftirtökur af ljósmyndum og safngögnum. Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Árnesinga tekur mið af gjaldskrá Forsætisráðneytis nr. 306/2009 auk gjaldskrár Myndstefs og Ljósmyndasafns Íslands og tekur til sölu ljósmynda, myndaleigu, þ.e. birtingar mynda vegna sýninga og/eða útgáfu sem og ljósritunar á skjölum.

Við pöntun á ljósmyndum samþykkir viðskiptamaður eftirfarandi skilmála. Viðskiptamaður skuldbindur sig til að afhenda Héraðsskjalasafni Árnesinga eitt eintak af útgáfu sem framleitt er á grundvelli þessa afnotaleyfis. Leyfið einskorðast við viðskiptamann og er ekki framseljanlegt. Nánari uppýsingar fást hjá starfsmönnum.

Ljósmynd í höfundarétti

kr. 18.065 stk. án vsk.

Ljósmynd úr höfundarétti

kr. 9.032 stk. án vsk.

Rafræn mynd til einkanota

kr. 2.016 stk. án vsk.

Veittur er afsláttur vegna afnota skóla, nemenda og safna. Þá er veittur 30% magnafsláttur fleiri en 7 myndir, t.d. vegna bókaútgáfu eða sýninga.

Myndvinnsla s.s. skönnun, stækkun og litgreining umfram það sem getið er að ofan þarf að greiða sérstaklega fyrir.

Umbúðir - gjaldskrá


Afhendingarskyldir aðilar geta keypt umbúðir fyrir skjöl sín á Héraðsskjalasafni Árnesinga. Langtímavarsla pappírsskjala krefst þess að notaðar séu viðurkenndar umbúðir og pappír sem uppfyllir ISO-9706 og fleiri staðla. Héraðsskjalasafnið notar og selur umbúðir frá KLUG conservation.

Hægt er að panta umbúðir með því að senda tölvupóst á heradsskjalasafn@heradsskjalasafn.is og eru pantanir afgreiddar samdægurs eða daginn eftir.

A4 30 mm

kr. 790 stk.

A4 50 mm

kr. 990 stk.

A4 80 mm

kr. 590 stk.

Folio 55 mm

kr. 990 stk.

Folio 80 mm

kr. 990 stk.

A3 50 mm

kr. 1.150 stk.

A3 70mm

kr. 1.250 stk.

A2 45mm

kr. 2.085 stk.

Arkir

kr. 20 stk.

Persónumöppur

kr. 50 stk.

Höfundaréttur


Héraðsskjalasafn Árnesinga fer með höfundarétt á ljósmyndum á vef safnsins nema annað komi fram. Lánþegi hefur aðeins rétt til að birta mynd einu sinni og þá er óheimilt að framselja mynd til birtingar. Myndir á myndasetur.is eru höfundaréttarvarðar. Fjölföldun og/eða birting er óheimil án skriflegs leyfis. Birting og dreifing á myndum til einkanota, þ.e. á myndum sem eru keyptar er óleyfileg.

Við birtingu mynda frá Héraðsskjalasafni Árnesinga skal ávalt geta ljósmyndara og hvaðan myndirnar eru fengnar sbr. sæmdarrétt ljósmyndara o.s.frv. Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni sbr. 4 gr. Höfundalög nr. 73/1972.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með höfundaréttarmálefni, sbr. 7.gr Forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 119/2018. Höfundaréttur er skilgreindur í höfundalögum sem eignarréttur höfundar á verki með þeim takmörkunum, sem í lögunum greinir. Höfundaréttur á m.a. við um ljósmyndalist og ljósmyndir, sama á hvern hátt og í hvaða formi myndir eru birtar, sbr. 1 gr. laga nr. 73/1972.

Um skjalasafnið


Héraðsskjalasafn Árnesinga var stofnað 15. nóvember 1985. Umdæmi safnsins er Árnessýsla og sveitarfélögin innan sýslunnar sem eru átta talsins: Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus.

Hér eru upplýsingar um starfsmenn, stjórn og sögu safnsins.

Starfsmenn og stjórn


Þorsteinn Tryggvi Másson

- héraðsskjalavörður

Guðmunda Ólafsdóttir

- yfirskjalavörður

F. Elli Hafliðason

- skjalavörður

Skráning ljósmynda

Stjórn Héraðsskjalasafns Árnesinga er skipuð af Héraðsnefnd Árnesinga BS. Stjórnarformaður skjalasafnsins situr jafnframt í framkvæmdastjórn Héraðsnefndar Árnesinga BS.

Gestur Þór Kristjánsson formaður

Brynhildur Jónsdóttir

Jón Bjarnason

Stefnumótun og skýrslur


Hvert stefnum við og hvaða markmiðum viljum við ná? Ný, spennandi og aðkallandi verkefni eru hvati stefnumótunar 2023-2028. Markmið stefnumótunar er að skýra enn frekar hlutverk héraðsskjalasafnsins í því stafræna umbreytingarferli sem framundan er hjá sveitarfélögunum um leið og hún nýtist til að upplýsa starfsfólk sveitarfélaga og almenning um tilgang og hlutverk héraðsskjalasafnsins. Leiðarstef nýrrar stefnumótunar hverfist nú um þær tæknilegu breytingar sem framundan eru og þau verkefni sem fylgja tilkynningu og skilum á rafrænum gagnasöfnum sveitarfélaga, stofnana þeirra og einstaklinga. Á sama tíma þarf að huga að þeim grunngildum sem stjórnskipun ríkis og sveitarfélaga byggir á, öryggi og áreiðanleika þeirra skjala sem afhent eru til vörslu og nota. Stefnumótunin er á sama tíma öflugt verkfæri sem nýtist til að forgangsraða verkefnum og tryggja að héraðsskjalasafnið uppfylli lagaskyldu.

Héraðsskjalaverðir eiga hver fyrir sig skv. 9.gr reglugerðar um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994 að gefa þjóðskjalaverði og rekstaraðilum árlega skýrslu um það sem bæst hefur í héraðsskjalasafn og um aðra markverða starfsemi þess. Eldri skýrslur eru aðgengilegar bæði í útprenti og sem pdf skjöl á skjalasafninu.

Saga


Á aðalfundi sýslunefndar Árnessýslu 6. og 7. júní 1985 var stofnsamþykkt Héraðsskjalasafns Árnesinga samþykkt og síðan undirrituð af þjóðskjalaverði 15. nóvember 1985 sem telst formlegur stofndagur héraðsskjalasafnsins. Undirbúning að stofnun Héraðsskjalasafns Árnesinga má þó rekja aftur til vorsins 1982 þegar félag áhugamanna um héraðssögu Árnessýslu var stofnað en meginmarkmið félagsins var að koma á fót héraðsskjalasafni. Skjöl voru þegar farin að berast skjalasafninu og þá hafði Bæjar- og héraðsbókasafnið einnig tekið við fjölda skjalasafna.

Sumarið 1985 var Finnur Magnússon ráðinn til að fara um sýsluna til að safna skjölum, afla upplýsinga og kynna skjalasafnið. Ári seinna var Inga Lára Baldvinsdóttir ráðin til að safna skjölum en Kristinn Júlíusson sá um móttöku. Pétur M. Sigurðsson sá um reikningshald. Í lok árs 1987 var óskað eftir því að starfsemi safnsins yrði flutt í sýningarsal safnahússins við Tryggvagötu 23. Það gerðist á vormánuðum 1988. Erlingur Brynjólfsson gekk þá til liðs við skjalasafnið í hlutastöðu en Pétur og Kristinn hættu. Ekki var fastur starfsmaður við safnið á þessum tíma.

Vatnaskil urðu í rekstri skjalasafnsins árið 1990. Björn Pálsson sem tók þátt í stofnun áhugamannafélagsins, auk þess að vera fyrsti formaður stjórnar skjalasafnsins eftir að það fékk starfsleyfi, var ráðinn í hálfa stöðu sem héraðsskjalavörður. Þann 8. september 1991, á 100 ára afmæli Ölfusárbrúar, flutti skjalasafnið í gamla kaupfélagshúsið sem nú hýsir bæði Bókasafn Árborgar og Ráðhús Sveitarfélagsins Árborgar. Núverandi héraðsskjalavörður er Þorsteinn Tryggvi Másson, skjalaverðir eru Guðmunda Ólafsdóttir og F. Elli Hafliðason.

Hlutverk Héraðsskjalasafns Árnesinga er í meginatriðum tvíþætt. Skjalasafninu ber að varðveita skjöl sveitarfélaga sýslunnar, bæði hinna fornu hreppa, sem voru 18, og þeirra átta sveitarfélaga sem nú eru til staðar. En sveitarfélögum og undirstofnunum þeirra ber skylda til að afhenda safninu skjalasöfn sín. Skjalasafnið hefur eftirlitsskyldu gagnvart sveitarfélögunum og vinnur náið með starfsfólki sveitarfélagana að því að gera skjalavörslu þeirra öruggari, skilvirkari og ódýrari. Þetta er stjórnsýslulegt hlutverk skjalasafnsins. Þá ber skjalasafninu að varðveita og efla þekkingu á sögu Árnessýslu. Skjalasöfn félaga, fyrirtækja og ekki síst einstaklinga varpa ljósi á ýmsa þætti í sögu sýslunnar. Skjalasafnið tekur við einkaskjalasöfnum, skráir og tryggir aðgengi almennings að skjalasöfnunum. Þetta er hið menningarlega hlutverk skjalasafnsins.

Á héraðsskjalasafninu eru fyrst og fremst skjöl sveitarfélaganna í sýslunni og undirstofnana þeirra auk skjala frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga. Yfir 350.000 ljósmyndir hafa borist skjalasafninu. Afhendingarnar frá byrjun eru tæplega 1.900 talsins. Héraðsskjalasafn Árnesinga geymir ómetanlegar heimildir um sögu héraðsins frá ofanverðri 19. öld og fram á þá 21.

Með nýjum lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 varð miðlun á safnkostinum hluti af lögbundnum verkefnum safnsins. Opnun á ljósmyndavef héraðsskjalasafnsins myndasetur.is vorið 2013 markaði tímamót. Forsagan nær aftur til haustsins 2010 þegar Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga sóttu sameiginlega um styrk frá Alþingi til að vinna að skráningu ljósmynda í skjalasöfnunum og gera þær aðgengilegar. Styrkurinn sem sótt var um, var sem svaraði til upphæðar fullra atvinnuleysisbóta auk launatengdra gjalda fyrir sex stöðugildi, tvö á hverju safni. Þá nutu söfnin fjárstyrks frá sveitarfélögum sem að þeim standa varðandi annan kostnað.

Vinna hófst þegar í byrjun árs 2011 með ráðningu starfsfólks og skipulagningu verkefnisins og héraðsskjalasöfnin gerðu með sér samstarfssamning í janúar 2011. Söfnin leituðu víða til að afla nauðsynlegra upplýsinga um viðurkennda staðla sem notaðir eru við skráningu ljósmynda, varðandi gæði skönnunar og varðveislu ljósmyndafilma til framtíðar. Undir lok árs 2011 var sótt um framhaldsstyrk til Mennta- og menningarmálaráðuneytis. Næstu fjögur ár, þ.e. 2011-2015 fékk verkefnið alls kr. 60.000.000 en upphæðinni var deilt jafnt niður á héraðsskjalasöfnin þrjú. Sveitarfélagið Árborg studdi verkefnið sérstaklega allt frá upphafi og þá studdi Menningarráð Suðurlands verkefnið frá 2011 til 2014.

Héraðsskjalasafninu innan handar frá upphafi þessa verkefnis var Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari sem fór um Suðurlandsundirlendið og víðar og ræddi við ljósmyndara og fjölskyldur ljósmyndara um mögulega afhendingu á myndum á héraðsskjalasafnið. Stærstur hluti þeirra ljósmynda sem núna eru á vefnum er tengjast heimsóknum Gunnars. Traust og tiltrú manna á verkefninu skipti miklu máli og ljóst að reynsla og þekking Gunnars skipti sköpum. Í kjölfarið afhentu Jóhann Þór Sigurbergsson, Sigurður Jónsson og Tómas Jónsson myndasöfn sín á héraðsskjalasafnið en þessi söfn eru hryggjarstykkið í ljósmyndasafninu ásamt ljósmyndasafni Ottó Eyfjörð sem var að fullu afhent 2015.

Skráning ljósmynda er samvinnuverkefni ljósmyndarana, starfsmanna skjalasafnsins og almennings. Fjölmargir einstaklingar hafa aðstoðað við skráningu með einum eða öðrum hætti og það bera að þakka. Alúð, þolinmæði og nákvæmni Tómasar Jónssonar við skráningu á myndasafni hans ber að þakka sérstaklega.

Myndasetur.is er gluggi inn í fortíðina og gefur okkur tækifæri á að skoða þróun byggðar og búsetuhátta á Suðurlandi.

Undir flipanum heimildir er að finna gjörðabækur sveitarfélaga, brunavirðingabækur, gjörðabækur og félagsblöð ungmennafélaga, gjörðabækur kvenfélaga og uppdrætti af skurðum Flóaáveitunnar svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að fletta fram og aftur, hlaða niður ljósmyndum af bókum og blöðum og prenta út. Þetta verkefni hófst á vormánuðum 2016 með styrk frá Þjóðskjalasafni Íslands. Verkefnið er risavaxið og á næstu árum munu fleiri heimildir úr vörslu skjalasafnsins rata á vefinn.

Persónuverndarstefna Héraðsskjalasafnsins


Persónuverndarstefna Héraðsskjalasafns Árnesinga er sett skv. 2. mgr. 24. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Héraðsskjalasafn Árnesinga kt. 630189-2849, Austurvegi 2, 800 Selfossi (einnig nefnt héraðsskjalasafn eða skjalasafn) er opinbert skjalasafn. Meginhlutverk þess er að taka við, heimta inn og varðveita skjöl frá afhendingarskyldum aðilum sem hafa þýðingu fyrir stjórnsýsluna, hagsmuni og réttindi borgararna eða hafa sögulegt gildi og hafa eftirlit með skjalavörslu afhendingarskyldra aðila.

Um aðgengi að skjölum fer að lögum, einkum lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, upplýsingalögum nr. 140/2012 og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Persónuverndarstefna þessi lýsir vinnslu héraðsskjalasafnsins á persónuupplýsingum. Héraðsskjalasafnið mun leitast við að veita þeim einstaklingum sem persónuverndaðar upplýsingar í þess fórum varða nánari fræðslu um þá vinnslu eftir því sem við á.

Hér fyrir neðan er hægt að nálgast persónuverndarstefnuna í heild sinni.

Lög, reglugerðir og reglur


Héraðsskjalasafnið starfar eftir lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og reglugerð um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994. Fjöldi annara laga og reglugerða hafa einnig áhrif á starfsemi safnsins og skilaskylda aðila. Þjóðskjalasafn Íslands setur reglur um skjalavörslu allra skilaskyldra aðila. Upplýsingar um gildandi reglur og eyðublöð geta skilaskyldir aðilar í umdæmi Héraðsskjalasafns Árnesinga nálgast hjá starfsmönnum safnsins.

© Héraðsskjalasafn Árnesinga 2024