Opnunartímar á lestrarsal

Lestrarsalur Héraðsskjalasafns Árnesinga er í Ráðhúsi Sveitarfélagsins Árborgar, Austurvegi 2, á jarðhæð. Gengið er inn í gegnum Bókasafn Árborgar. Á lestrarsalinn koma þeir sem vilja fá skjöl eða aðrar upplýsingar tengdar starfsemi skjalasafnsins.

Lestarsalurinn er opinn sem hér segir:
 • Mánudaga 10:00 til 16:00
 • Þriðjudaga 10:00 til 16:00
 • Miðvikudaga lokað
 • Fimmtudaga 10:00 til 16:00
 • Föstudaga 10:00 til 16:00

Sumarlokun og lokun yfir hátíðar er auglýst sérstaklega á forsíðu vefsins.Reglur um aðgang að skjölum á Héraðsskjalasafni Árnesinga

Að jafnaði gildir sú regla að öllum er heimill aðgangur að skjölum í vörslu hérðasskjalasafnsins. Á þessu eru nokkrar undantekningar sem flestar lúta að almannahagsmunum og persónuvernd einstaklinga. Skjöl sem innihalda upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga eru ekki opin/aðgengileg öðrum en þeim er málið varðar, fyrr en að 80 árum liðnum frá myndun þeirra. Sjá nánar Upplýsingalög nr. 50/1995 og Lög um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga nr. 77/2000.Pantanir og afgreiðsla skjala á lestrarsal

Pöntunum og afgreiðslu skjala á lestarsal er sinnt jafn óðum. Meginreglan er því sú að ekki þarf að panta skjöl fyrirfram. Á þessu geta þó verið undantekningar ef um mikið magn skjala er að ræða. Í því sambandi vísast til reglna um lestrarsal.

Héraðsskjalasafninu er heimilt að lána skjöl í opinber skjalasöfn, bókasöfn eða rannsóknarstofnanir. Ekki er heimilt að lána einstaklingum skjöl. Forstöðumaður þess safns/stofnunar, sem óskar eftir skjölum í millisafnalán, er ábyrgðaraðili vegna skjalalána. Skjölin skulu geymd á öruggum stað, þar sem ábyrgðaraðili/ starfsmenn safnsins hafa einir aðgang.

Notandi má einungis nota skjölin á vöktuðu svæði og umgangast þau samkvæmt leiðbeiningum til gesta á lestrarsal Héraðsskjalasafns Árnesinga. Ljósmyndun, skönnun, ljósritun eða önnur afritun skjala skal háð reglum Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Aðgengi að skjölunum skal miða við einn notanda. Ef aðrir en sá sem í upphafi kom beiðninni á framfæri biðja um afnot, skal hafa samband við Héraðsskjalasafn Árnesinga. Að jafnaði eru ekki lánaðar fleiri en 8 til 10 skjalaöskjur hverju sinni.

Útlánstími skal að jafnaði vera á bilinu 1-3 mánuðir. Hægt er að framlengja útlánstíma og skal það gert með formlegum og sannanlegum hætti, þ.e. bréflega, hvort sem það er gert með burðarpósti eða tölvupósti. Kostnaður vegna flutnings skjala greiðist af lántökusafni.

Reglur þessar byggjast á 25.-33. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn , sem taka við af lögum nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og miða að því að tryggja öryggi skjalanna og þar með framtíðarvarðveislu þeirra og notkun.Reglur fyrir gesti á lestrarsal Héraðsskjalasafni Árnesinga

Reglurnar taka mið af reglum Þjóðskjalasafns Íslands fyrir gesti á lestrarsal frá 20. janúar 2010.

 • Við komu á lestrarsal skulu gestir skrá nafn sitt í gestabók.
 • Ef enginn starfsmaður er staddur á lestrarsalnum, vinsamlegast hringið bjöllunni til að fá afgreiðslu.
 • Einungis ein skjalaaskja má vera opin í einu til að koma í veg fyrir að innihald ruglist. Halda skal innihaldi askja og röð skjala óbreyttri.
 • Aðgangur að skjölum getur verið takmarkaður skv. lögum.
 • Öllum gögnum skal að lokinni notkun skila til starfsmanna.
 • Ekki má trufla aðra gesti með samtölum eða öðrum hávaða.
 • Óheimilt er að tala í síma á lestrarsal.
 • Matvæli og drykkjarföng eru óheimil á lestrarsal.
 • Gæta skal fyllstu varkárni í meðferð skjala: Aðeins má nota blýanta, ekki penna á lestrarsal. Ekki má skrifa í skjöl eða merkja þau t.d. með límmiðum. Ekki má beygla skjöl eða brjóta á hrygg. Ekki má nota skjöl sem undirlag eða stafla opnum bókum hverri ofan á aðra. Ekki má láta bækur hvíla á borðbrún eða í kjöltu sér. Tilkynnið skjalavörðum um skemmd skjöl eða ef röð skjala virðist röng.
 • Heimilt er að ljósmynda skjöl með myndavél, brjóti það ekki í bága við lög sbr. Upplýsingalög nr. 50/1995 og Lög um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga nr. 77/2000. Ávalt skal þó fá samþykki skjalavarða áður en skjöl eru ljósmynduð.
 • Gæta skal fyllstu varúðar við myndatökuna og gæta þess að skemma ekki skjöl eða bækur með þvingunum eða öðrum hætti. Ekki reyna að slétta blaðrönd sem er trosnuð (rifin og slitin) eða beygluð. Hafa skal samband við skjalavörð í slíkum tilvikum.
 • Ekki má nota leifturljós (e.flash) við myndatöku.
 • Ekki má mynda skjöl sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.
 • Ekki má mynda skjöl sem eru varin af höfundarréttarákvæðum svo sem ljósmyndir með höfundarnafni.
 • Brot á reglum þessum getur varðað banni við aðgang að lestrarsal.


 • Stjórn Héraðsskjalasafns Árnesinga og eigendur

  Stjórn Héraðsskjalasafns Árnesinga er skipuð af Héraðsnefnd Árnesinga bs. sem er eigandi skjalasafnsins. Héraðsnefndin starfar í umboði þeirra átta sveitarfélaga sem eru í Árnessýslu en þau eru: Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus. Stjórnina skipa:

  Starfsmenn Héraðsskjalasafns Árnesinga

  Starfsmenn Héraðsskjalasafns Árnesinga eru fjórir. Tveir fastráðnir starfsmenn, héraðsskjalavörður og skjalavörður. Þá eru tveir starfsmenn í ljósmyndaverkefni.

  Saga Héraðsskjalasafns Árnesinga

  Á aðalfundi sýslunefndar Árnessýslu 6. og 7. júní 1985 var stofnsamþykkt Héraðsskjalasafns Árnesinga samþykkt og síðan undirrituð af þjóðskjalaverði 15. nóvember 1985 sem telst formlegur stofndagur héraðsskjalasafnsins. Undirbúning að stofnun Héraðsskjalasafns Árnesinga má þó rekja aftur til vorsins 1982 þegar félag áhugamanna um héraðssögu Árnessýslu var stofnað en meginmarkmið félagsins var að koma á fót héraðsskjalasafni. Skjöl voru þegar farin að berast skjalasafninu og þá hafði Bæjar- og héraðsbókasafnið einnig tekið við fjölda skjalasafna.

  Sumarið 1985 var Finnur Magnússon ráðinn til að fara um sýsluna til að safna skjölum, afla upplýsinga og kynna skjalasafnið. Árið 1986 var Inga Lára Baldvinsdóttir ráðin til að safna skjölum en Kristinn Júlíusson sá um móttöku skjala. Pétur M. Sigurðsson sá um reikningshald. Í lok árs 1987 var óskað eftir því að starfsemi safnsins yrði flutt í sýningarsal safnahússins við Tryggvagötu 23. Það gerðist á vormánuðum 1988. Erlingur Brynjólfsson gekk þá til liðs við skjalasafnið í hlutastöðu en Pétur og Kristinn hættu. Ekki var fastur starfsmaður við safnið á þessum tíma.

  Vatnaskil urðu í rekstri skjalasafnsins árið 1990. Björn Pálsson sem á sínum tíma tók þátt í stofnun áhugamannafélagsins, auk þess að vera fyrsti formaður stjórnar skjalasafnsins eftir að það fékk starfsleyfi, var þá ráðinn í hálfa stöðu sem héraðsskjalavörður. Þann 8. september 1991, á 100 ára afmæli Ölfusárbrúar, flutti skjalasafnið í gamla kaupfélagshúsið sem nú hýsir bæði Bókasafn Árborgar og Ráðhús Sveitarfélagsins Árborgar. Núverandi héraðsskjalavörður er Þorsteinn Tryggvi Másson, skjalavörður er Sævar Logi Ólafsson.

  Hlutverk Héraðsskjalasafns Árnesinga er í meginatriðum tvíþætt. Skjalasafninu ber að varðveita skjöl sveitarfélaga sýslunnar, bæði hinna fornu hreppa, sem voru 18, og þeirra átta sveitarfélaga sem nú eru til staðar. En sveitarfélögum og undirstofnunum þeirra ber skylda til að afhenda safninu skjalasöfn sín. Skjalasafnið hefur eftirlitsskyldu gagnvart sveitarfélögunum og vinnur náið með starfsfólki sveitarfélagana að því að gera skjalavörslu þeirra öruggari, skilvirkari og ódýrari. Þetta er stjórnsýslulegt hlutverk skjalasafnsis. Þá ber skjalasafninu að varðveita og efla þekkingu á sögu Árnessýslu. Skjalasöfn félaga, fyrirtækja og ekki síst einstaklinga varpa ljósi á ýmsa þætti í sögu sýslunnar. Skjalasafninu tekur við einkaskjalasöfnum, skráir og tryggir aðgengi almennings að skjalasöfnunum. Þetta er hið menningarlega hlutverk skjalasafnsins.

  Á héraðsskjalasafninu eru nú rúmlega 1.000 hillumetrar af skjölum frá sveitarfélögum í sýslunni og undirstofnunum þeirra auk skjala frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga. Yfir 200.000 ljósmyndir hafa borist skjalasafninu. Afhendingarnar frá byrjun eru nú rúmlega 1.800 talsins. Héraðsskjalasafn Árnesinga geymir ómetanlegar heimildir um sögu héraðsins frá ofanverðri 19. öld og fram á þá 21.
  2016 ©